Innlent

„Þar var hinn ný­skipaði lög­reglu­stjóri þátt­takandi“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, tjáir sig um ráðninguna á Karli Gauta Hjaltasyni.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, tjáir sig um ráðninguna á Karli Gauta Hjaltasyni. Vísir/Jóhann/Vilhelm

Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi lögreglustjóri og þingmaður Miðflokksins, var í dag skipaður af dómsmálaráðherra í embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum frá og með næstu mánaðarmótum. Bæjarstjóri Vestmannaeyja gagnrýnir ráðninguna í færslu sem hún birtir á Facebook-síðu sinni.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, tjáir sig um ráðninguna á Karli Gauta í færslunni og vekur athygli á því að hann var einn þeirra þingmanna sem átti hlut að málinu sem kennt er við Klaustursbar. Í ósæmilegum umræðum þingmannanna á barnum var meðal annars rætt um Írisi sjálfa.

„Nú ætla ég að segja eitt sem er mjög dónalegt. Hún er ung, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var fyrir fjórum árum síðan,“ heyrðist í Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, segja í upptökum á samræðum þingmannanna er rætt var um Írisi.

Í færslunni segir Íris að hún muni auðvitað vinna með þeim lögreglustjóra sem réttilega er skipaður til starfa í Vestmannaeyjum hverju sinni. Þá skýtur hún á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fyrir að hafa ákveðið að velja Karl Gauta í starfið.

„Dómsmálaráðherra hefur væntanlega komist að þeirri niðurstöðu, eftir vandlega íhugun, að þetta sé heppileg og smekkleg ráðstöfun eftir þá kvenfyrirlitningu og almennu mannfyrirlitningu sem mér og fleirum var sýnd á Klaustur bar hér um árið. Þar var hinn nýskipaði lögreglustjóri þátttakandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×