Þrátt fyrir hræðilegt bónorð að eigin sögn sagði kærasta Zinchenkos, sjónvarpskonan Vlada Shcheglova, já.
„Hvernig ég bað hennar var það versta í heimi. Þetta var skammarlegt,“ sagði Zinchenko í samtali við vefsíðuna FootballersLives.tv. Hann var samt aldrei í vafa um að Vlada segði já.
„Að sjálfsögðu gerði hún það. Fyrir það fyrsta því ég er hinn úkraínski Brad Pitt og ég var á nærbuxunum og er frábærlega vaxinn.“
Zinchenko bað Vlödu eftir landsleik Úkraínu og Portúgals í undankeppni EM. Hann ætlaði að gera það í viðtali sem hún tók við hann eftir leikinn. Í staðinn bað hann hennar um miðja nótt, á nærbuxunum einum fata.
„Ég vil ráðleggja öllum sem eru að spá í að biðja kærustuna sína um að giftast sér, ekki gera það eins og ég,“ sagði Zinchenko.
Honum til varnar bað hann Vlödu seinna frammi fyrir sjötíu þúsund manns á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði 2020. Þau voru bæði klædd í úkraínska landsliðsbúninginn.
Zinchenko og félagar hans í Arsenal unnu 4-1 sigur á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Skytturnar eru með átta stiga forskot á toppi deildarinnar.