Englandsmeistararnir fara með örugga forystu til München

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland skoraði þriðja mark City í kvöld.
Erling Braut Haaland skoraði þriðja mark City í kvöld. Catherine Ivill/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City unnu öruggan 3-0 sigur er liðið tók á móti Þýskalandsmeisturum Bayern München í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi leiks, en vörn Bayern stóð vel og City átti í nokkrum erfiðleikum með að komast í opin marktækifæri. Liðið tók þó forystuna eftir tæplega hálftíma leik þegar Rodri lét vaða af löngu færi og boltinn söng í netinu. 

Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Bernardo Silva tvöfaldaði svo forystu Englandsmeistaranna þegar hann stangaði fyrirgjöf frá Erling Braut Haaland í netið á 70. mínútu áður en Haaland var sjálfur á ferðinni sjö mínútum síðar og staðan var því orðin 3-0.

Ekki tókst gestunum að klóra í bakkann undir lokin og niðurstaðan varð því öruggur 3-0 sigur City. Þýsku meistararnir eiga því erfitt verkefni fyrir höndum í seinni leiknum sem fer fram á heimavelli þeirra eftir rúma viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira