Enski boltinn

„Besti leikur okkar á tímabilinu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Klopp var ánægður með leikinn í gær.
Klopp var ánægður með leikinn í gær. Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir lið hans hafa spilað besta leik sinn á leiktíðinni er það vann Leeds United með sannfærandi hætti, 6-1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöld.

„Þetta var besti leikurinn okkar á leiktíðinni, frá mörgum sjónarhornum litið. Við stjórnuðum leiknum og neyddum Leeds til að gera mörg mistök. Stórkostleg mörk. Við gagnpressuðum betur en við höfum gert lengi,“ sagði Klopp eftir leik.

Leeds reyndist ekki mikil fyrirstaða og hefur liðinu gengir afar illa, sérstaklega varnarlega, að undanförnu þar sem liðið hélt síðast hreinu um miðjan febrúar. Varnarleikur liðsins var ekki sannfærandi í mörkum Liverpool sem flest komu upp úr hröðum sóknum í kjölfar þess að boltinn vannst ofarlega á vellinum.

„Ég get ekki útskýrt hvers vegna gagnpressa okkar hefur ekki verið til staðar, þar sem við höfum beðið um hana, en þetta small í kvöld. Hún raunar small gegn í síðari hálfleiknum gegn Arsenal. Tökin sem við náðum í þeim leik er vegna þess að við unnum boltann til baka,“ segir Klopp.

Liverpool hefur gengið illa á leiktíðinni og situr í áttunda sæti ensku úrvalsdeildinnar með 47 stig, níu stigum frá Meistaradeildarsæti. Klopp vonast eftir góðum endaspretti og vonast til að liðið sé ekki að hrökkva í gang of seint.

„Hvar við endum veit ég ekki. En boltinn rúllar áfram eftir þessa leiktíð. Það er ástæðan fyrir því að við þurfum öll þau góðu úrslit og frammistöður til að byggja á,“

„Ég vil sjá okkur sýna sömu löngun, ástríðu og skilning sem við sýndum í kvöld. Það er okkar hlutverk að finna það reglulega.“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×