Körfubolti

„Eitthvað ógeðslega gaman við að sé einhver alvöru vondi kall“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dillon Brooks og LeBron James munnhöggvast.
Dillon Brooks og LeBron James munnhöggvast. getty/Harry How

Deila þeirra LeBrons James og Dillons Brooks er meðal þess sem verður til umræðu í Lögmáli leiksins í kvöld.

Þótt sérfræðingar þáttarins séu ekki mestu aðdáendur Brooks viðurkenna þeir að hann kryddi NBA tilveruna. Hann gerði allt vitlaust þegar hann lét LeBron heyra það eftir leik Memphis Grizzlies og Los Angeles Lakers í 1. umferð úrslitakeppninnar en þagði svo þunnu hljóði eftir annan leik liðanna þar sem LeBron hafði betur.

„Við höfum ekkert séð svona gerast oft. Bæði það sem Brooks sagði í viðtalinu eftir leikinn og líka það að einn besti leikmaður allra tíma labbi upp að leikmanni fyrir leik fyrir ruslatal [e. trash talk],“ sagði Hörður Unnsteinsson.

„Þessi sögulína með Dillon Brooks og LeBron James er sjúklega áhugaverð. Eins mikið og við þolum ekki Brooks, og höfum talað um það í allan vetur, er eitthvað ógeðslega gaman við að sé einhver alvöru vondi kall.“

Klippa: Lögmál leiksins: Deila LeBrons og Brooks

Tómas Steindórsson tók í sama streng og Tómas. „Hann tók bara ákvörðun: ég ætla að markaðssetja mig sem vonda kallinn. Og hann er búinn að vera óþolandi síðan sem er skemmtilegt,“ sagði Tómas.

„Annars myndum við ekkert vita hver þetta er,“ bætti Hörður við.

Lögmál leiksins er á dagskrá Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 20:35 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×