Körfubolti

Tvö lið í sumarfrí en eitt hélt sér á lífi í NBA í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Devin Booker átti magnaðan leik með Phoenix Suns liðinu í nótt.
Devin Booker átti magnaðan leik með Phoenix Suns liðinu í nótt. AP/Matt York

Los Angeles Clippers og Minnesota Timberwolves eru bæði komin í sumarfrí eftir tap í nótt í fimmta leik í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en Atlanta Hawks hélt sér á lífi í einvígi sínu á móti Boston Celtics.

Nikola Jokic var með þrefalda tvennu og Jamal Murray skoraði 35 stig þegar Denver Nuggets sló út Minnesota Timberwolves með 112-109 sigri. Denver vann einvígið því 4-1. Jokic bauð upp á 28 stig, 17 fráköst og 12 stoðsendingar í leiknum en hitti aðeins úr 8 af 29 skotum sínum.

Phoenix Suns er líka komið áfram eftir 136-130 sigur á Los Angeles Clippers og þar með 4-1 sigur samanlagt. Devin Booker átti magnaðan leik en hann var með 47 stig og 10 stoðsendingar í leiknum. Kevin Durant skoraði 31 stig en saman hittu þeir félagar úr 8 af 13 þriggja stiga skotum sínum. Booker var með 25 stig í þriðja leikhlutanum einum saman.

Norman Powell skoraði 27 stig fyrir Clippers liðið en Russell Westbrook (14 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar) hitti aðeins úr 3 af 18 skotum sínum í leiknum. Clippers vann fyrsta leikinn í einvíginu en tapaði síðan næstu fjórum. Kawhi Leonard spilaði bara fyrstu tvo leikina en meiddist svo á hné.

Denver Nuggets og Phoenix Suns mætast í undanúrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Atlanta Hawks hélt sér á lífi í einvíginu á móti Boston Celtics með mögnuðum endaspretti en Hawks minnkaði muninn í 3-2 með 119-117 sigri í Boston. Celtics var þrettán stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta.

Trae Young sá nánast einn til þess að það verður annar leikur í einvíginu því hann skoraði fjórtán síðustu stig Atlanta Hawks liðsins í leiknum þar á meðal þriggja stiga sigurkörfu þegar aðeins 2,1 sekúnda var eftir. Young endaði leikinn með 38 stig og 13 stoðsendingar.

Jaylen Brown skoraði 35 stig fyrir Boston en Jayson Tatum var með 19 stig. Tatum hitti aðeins úr 1 af 10 þriggja stiga skotum sínum en var með 8 fráköst og 8 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×