Körfubolti

Teiknaði sjálfur upp lokaleikkerfið, skoraði og sendi Milwaukee í sumarfrí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jimmy Butler jafnar fyrir Miami Heat gegn Milwaukee Bucks undir lok venjulegs leiktíma. Miami vann svo í framlengingu og er komið í undanúrslit Austurdeildarinnar.
Jimmy Butler jafnar fyrir Miami Heat gegn Milwaukee Bucks undir lok venjulegs leiktíma. Miami vann svo í framlengingu og er komið í undanúrslit Austurdeildarinnar. getty/Stacy Revere

Miami Heat gerði sér lítið fyrir og sendi efsta lið Austurdeildarinnar, Milwaukee Bucks, í sumarfrí í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Miami vann einvígið, 4-1.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2012 sem lið sem endar í 8. sæti vinnur lið í 1. sæti. Þá sló Philadelphia 76ers Chicago Bulls út.

Annan leikinn í röð var Jimmy Butler hetja Miami en hann jafnaði leikinn í þann mund sem tíminn rann út með ótrúlegu skoti. Erik Spoelstra teiknaði upp leikkerfi sem Butler var ekki hrifinn af svo þjálfarinn skipti um skoðun, sem betur fer fyrir Miami sem vann leikinn svo í framlengingu, 126-128.

Butler fylgdi eftir 56 stiga frammistöðu sinni í fjórða leiknum með 42 stigum í nótt. Hann skoraði 38,4 stig að meðaltali í einvíginu. Gabe Vincent skoraði 22 stig og Bam Adebayo var með þrefalda tvennu; tuttugu stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.

Í undanúrslitum Austurdeildarinnar mætir Miami New York Knicks sem sigraði Cleveland Cavaliers, 95-106, í nótt. Knicks vann einvígið, 4-1, en þetta er í fyrsta sinn síðan 2013 sem liðið vinnur einvígi í úrslitakeppninni. Jalen Brunson skoraði 23 stig fyrir Knicks og RJ Barrett 21.

Memphis Grizzlies minnkaði muninn í einvíginu gegn Los Angeles Lakers í 3-2 með sautján stiga heimsigri, 116-99. Bakverðir Memphis voru í stuði í leiknum. Desmond Bane skoraði 33 stig og Ja Morant 31. Báðir tóku þeir tíu fráköst.

Þá er Golden State Warriors einum sigri frá sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar eftir að hafa unnið Sacramento Kings á útivelli, 116-123. Stephen Curry skoraði 31 stig fyrir Golden State og Klay Thompson 25.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×