Enski boltinn

Tóku þeir Arsenal-liðið á taugum fyrir leik?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 John Stones, Ruben Dias og Rodri fagna saman einu marka Manchester City á móti Arsenal í gær.
 John Stones, Ruben Dias og Rodri fagna saman einu marka Manchester City á móti Arsenal í gær. Getty/Alex Livesey

Úrslitaleikur eða ekki úrslitaleikur. Það virtist vera spurningin en bara hjá einum manni. Manchester City rúllaði upp Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær og hefur nú allt í sínum höndum til að vinna enska titilinn þriðja árið í röð og í fimmta sinn á sex árum.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, reyndi að létta pressunni af sínum leikmönnum með því að tala um það fyrir leikinn að slagurinn á móti Manchester City myndi ekki ráða úrslitum í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn þótt nær allir aðrir væru sannfærðir um það.

Á endanum sýndu leikmenn Manchester City mikla yfirburði og unnu sannfærandi 4-1 sigur.

Arsenal hefur verið að gefa eftir í síðustu leikjum og var búið að tapa sex stigum í undanförnum þremur umferðum. Þeim tókst ekki að stoppa City hraðlestina sem tók völdin frá byrjun leiks.

Starfsmenn Manchester City gerðu Arsenal mönnum sennilega mikinn óleik með því að mæta með sjálfan Englandsbikarinn út á völl fyrir leik.

Allt tal Arteta um að þetta væri ekki úrslitaleikur fór um leið út úr veður og vind enda gerðu leikmenn Arsenal liðsins sér auðvitað fulla grein fyrir því að liðið varð að fá eitthvað út úr þessum leik ætlaði liðið að stoppa hið geysisterka lið City.

Arsenal hefur ekki fengið að snerta þennan Englandsbikar í nítján ár og þó að þeir séu enn með tveggja stiga forystu þá á City tvo leiki inni og sigurinn vísan. Þeir komast líklegst ekki nær honum en fyrir leikinn í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×