Enski boltinn

„Solskjær sagði mér að Maguire þyrfti að spila því þeir borguðu svo mikið fyrir hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcos Rojo er ekki mesti aðdáandi Harrys Maguire.
Marcos Rojo er ekki mesti aðdáandi Harrys Maguire. getty/Simon Stacpoole

Marcos Rojo, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir að Ole Gunnar Solskjær hafi viðurkennt að hann notaði Harry Maguire einungis út af verðmiðanum.

Í viðtali við TYC Sports lýsti Rojo óánægju sinni yfir því að Solskjær hafi notað Maguire frekar en hann.

„Ég var mjög góður á Englandi 2019. Ég spilaði í Evrópudeildinni en var mjög reiður út í þjálfarann vegna þess að hann notaði Maguire frekar en mig. Ég þakka guði fyrir að þeir nota hann ekki lengur,“ sagði Rojo.

„Dag einn fór ég inn á skrifstofu til Solskjærs til að segja honum að leyfa mér að fara til annars félags eða setja mig í byrjunarliðið. Ég sagði að það væri rangt að ég væri ekki að spila. En hann sagði mér að Maguire þyrfti að spila því þeir borguðu svo mikið fyrir hann. Hann gerði stór mistök í hverri einustu viku og ég sagði Solskjær það.“

United gerði Maguire að dýrasta varnarmanni heims þegar félagið borgaði Leicester City áttatíu milljónir punda fyrir hann sumarið 2019. Maguire er núna fyrirliði United en hefur lítið spilað á þessu tímabili.

Rojo var lánaður til Estudiantes í Argentínu í ársbyrjun 2020. Ári seinna samdi hann svo við Boca Juniors.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×