Samkvæmt Jóni Þór Víglundssyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, höfðu tveir ræðarar farið út á sitt hvorum kajaknum. Annan þeirra rak hratt í burtu og fór svo að hinn missti sjónar af honum. Tilkynnti hann um óhappið.
„Ræðarinn var í þurrbúning, en sjávarhiti er ekki hár á þessum slóðum og því líklegt að hann myndi kólna,“ segir Jón Þór.
Björgunarsveitir settu út báta með hraði og hófu leit. Fannst kajakinn austur af Hrísey um klukkan 14:45 og maðurinn skömmu síðar. Var hann heill á húfi og bar sig vel. Fór fólkið um borð í Hríseyjarferjuna , sem tók þátt í leitinni, og flutti þau upp á Árskógssand.