Vinstri handleggur Breka er stytti en sá hægri og nær rétt niður fyrir olnboga. Hann stundaði borðtennis lengst af en smitaðist af crossfit-veirunni fyrir fjórum árum síðan og var ekki lengi að setja sér háleit markmið.
„Ég byrjaði í þessu ágúst 2019, fannst mjög gaman og mjög krefjandi. Fylgdu þessu sjúklega margar áskoranir, hvernig ég ætlaði að útfæra ýmsar hreyfingar og svona, fannst það alltaf frekar heillandi.“
„Fyrst og fremst, eins og mætti ímynda sér, eru langflestar hreyfingar framkvæmdar með tveimur höndum, sem er eitthvað sem ég bý ekki svo vel að,“ sagði Breki og hló aðspurður hvað væru svona helstu áskoranirnar sem fylgdu því að vera einhentur í crossfit.
„Ég hef þurft að finna lausnir og svona. Ég er líka heppinn því það er strákur frá Bandaríkjunum sem er að keppa í sama flokki og var búinn að gera þetta allt. Að miklu leyti snýst þetta um að þora að nota litlu höndina mína. Vera ekkert hræddur við að beita henni,“ sagði Breki að endingu.