Slysavarnafélagið Landsbjörg greinir frá þessu. Skipið fór fyrr í dag í æfingasiglingu út frá Sandgerði og skeði óhappið um klukkan 13. Kælirör fyrir aðra aðalvél skipsins sprakk með þeim afleiðingum að vélarrúm fylltist af gufu. Fór brunavarnarkerfi skipsins í gang í kjölfarið.
„Áhöfnin brást við samkvæmt fyrir fram ákveðnu verklagi, drepið var á báðum vélum og öllum rýmum lokað,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Þegar ljóst var að enginn eldur var um borð var vélarrúmið reykræst. Þá kom ástæðan í ljós, sprungið kælivatnsrör.“

Var hin vél skipsins gangsett og siglt á því vélarafli til hafnar í Sandgerði, um hálftíma leið. Björgunarskipið Oddur V. Gíslason, var kallað út frá Grindavík en ekki reyndist þörf á aðstoðinni.
Skert viðbragð á Suðurnesjum
Jón Þór segir að Sandgerðingar hefðu nýlega fengið björgunarskipið og að unnið hafi verið að því að standsetja það fyrir strandveiðitímabilið sem hefst á morgun.
„Ekki er ljóst á þessari stundu hversu mikil og kostnaðarsöm viðgerðin á Hannesi verður, en þó ljóst að ekkert björgunarskip verður til taks í Sandgerði á næstunni, og viðbragð því skert á Suðurnesjum,“ segir Jón Þór.