Formúla 1

Hefur fulla trú á því að hann geti barist um titilinn við Ver­stappen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sergio Perez telur að hann geti barist um heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1.
Sergio Perez telur að hann geti barist um heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1. Michael Potts/BSR Agency/Getty Images

Sergio Perez, ökumaður Red Bull í Formúlu 1, segist hafa fulla trú á því að hann geti barist við liðsfélaga sinn, tvöfalda heimsmeistarann Max Verstappen, um heimsmeistaratitilinn á tímabilinu.

Perez kom fyrstur í mark í Bakú í gær og vann þar með sinn annan kappakstur á tímabilinu og þann sjötta á ferlinum. Það má segja að Mexíkóinn hafi átt nánast fullkomna helgim því Perez bar einnig sigur úr býtum í sprettkeppninni á laugardaginn og tók því samtals 33 stig í heimsmeistarakeppni ökuþóra um helgina.

Max Verstappen hafnaði hins vegar annar í keppninni í gær og þriðji í sprettkeppninni. Hollenski heimsmeistarinn fékk því aðeins 24 stig um helgina og er nú aðeins með sex stiga forskot á toppnum eftir fjórar keppnir. Perez situr í öðru sæti.

Þrátt fyrir að stutt sé liðið á tímabilið telur Perez að hann geti veitt liðsfélaga sínum harða samkeppni um heimsmeistaratitilinn í ár.

„Það er langt tímabil framundan,“ sagði Perez eftir sigur gærdagsins.

„Við viljum báðir vinna hvorn annan. Ég vil verða heimsmeistari alveg jafn mikið Max vill verða heimsmeistari. En við berum mikla virðingu fyrir hvorum öðrum og við sjáum íþróttina fyrir okkur á svipaðan hátt. Ég efast um að það muni breytast.“

„Við munum berjast eins harkalega og við getum, en um leið bera virðingu fyrir hvorum öðrum og liðinu,“ bætti Perez við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×