Körfubolti

„Þetta verður bras fyrir Lakers“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og Stephen Curry stíga enn einn dansinn í úrslitakeppninni.
LeBron James og Stephen Curry stíga enn einn dansinn í úrslitakeppninni. getty/Ezra Shaw

Sérfræðingar Lögmáls leiksins hafa áhyggjur af því hvernig Los Angeles Lakers ætlar að verjast Golden State Warriors í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA sem hefst í nótt.

LeBron James mætir þarna einum af höfuðandstæðingum sínum, Stephen Curry. Þeir þekkjast ansi vel eftir að hafa leikið saman í deildinni frá 2009 og mæst í úrslitum fjögur ár í röð (2015-18).

Hörður Unnsteinsson og Tómas Steindórsson hafa meiri trú á Golden State en Lakers komist í úrslit Vesturdeildarinnar. Þeir ræddu einvígið í Lögmáli leiksins í kvöld.

„Fyrir mér eru Golden State mun sigurstranglegari í þessu einvígi vegna þess hversu mikla athygli Stephen Curry dregur fram og mun setja á frekar slaka Lakers-vörn,“ sagði Hörður. 

„Við höfum séð að besta vörnin á móti Golden State er alls herjar skiptivörn eins og Houston Rockets komu í raun fyrstir með 2017. Það er besta vopnið á móti þeim en Lakers er einfaldlega ekki með lappir eða menn til að framkvæma þannig varnarleik.“

Klippa: Lögmál leiksins - Einvígi Warriors og Lakers

Tómas segir hægara sagt en gert að dekka Curry. „Þegar maður fylgist með Curry, þú getur aldrei slakað á í sekúndubrot. Þá er hann kominn með frítt skot. Í 24 sekúndur hleypur hann út um allt og leitar að opnun. Þetta verður bras.“

Lögmál leiksins er á dagskrá Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×