Enski boltinn

Lið­fé­lagarnir stóðu heiðurs­vörð fyrir Haaland eftir að hann sló marka­metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fékk mjög sérstakar móttökur frá liðinu sínu í leikslok.
Erling Haaland fékk mjög sérstakar móttökur frá liðinu sínu í leikslok. Getty/Alex Livesey

Erling Haaland hættir ekkert að skora og markið hans á móti West Ham í gær þýðir að enginn leikmaður hefur nú skorað fleiri mörk á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Haaland hefur nú skorað 35 mörk í aðeins 31 leik og fær líka nokkra leiki í viðbót til að bæta við metið sitt. Fjörutíu marka múrinn er í augsýn enda vinnur City alla leiki og í þeim flestum er Norðmaðurinn á skotskónum.

Metið var áður í eigu þeirra Andrew Cole and Alan Shearer sem skoruðu á sínum tíma 34 mörk á einu tímabili fyrir lið sín, Newcastle 1993-94 (Cole) og Blackburn 1994-95 (Shearer). Það var í 42 leikja deild.

Haaland hafði áður slegið met Mohamed Salah í 38 leikja deild en Liverpool maðurinn skoraði 32 mörk tímabilið 2017-18.

Liðsfélagar Haaland hjá Manchester City fögnuðu vel með honum og það vakti athygli að eftir leikinn þá stóðu þeir heiðursvörð fyrir Norðmanninn unga eins og sjá má hér fyrir neðan. Pep Guardiola lét sig heldur ekki vanta.

„Mér fannst hann eiga þetta skilið og allt liðið á þetta skilið því án liðsins þá gæti hann þetta ekki,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, eftir leikinn.

„Við erum bara ánægðir fyrir hans hönd. Hann kemur með gleði inn í hópinn. Það er gott að vinna með honum og allir eru ánægðir með að hafa hann í okkar liði. Auðvitað mun þetta met falla einhvern tímann og kannski af honum í framtíðinni. Hann mun skora mikið af mörkum,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×