Körfubolti

26 ára sonur eiganda Cleveland Cavaliers lést um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dan Gilbert hefur verið eignandi Cleveland Cavaliers í næstum því tvo áratugi.
Dan Gilbert hefur verið eignandi Cleveland Cavaliers í næstum því tvo áratugi. Getty/Gregory Shamus

Nick Gilbert, sonur Dan Gilbert eiganda NBA-liðsins Cleveland Cavaliers, lést um helgina en hann náði aðeins að verða 26 ára gamall.

Nick glímdi við erfðasjúkdóm sem herjaði á taugakerfið. Hann heitir á ensku Neurofibromatosis sem hefur verið þýtt Taugatrefjaæxlager á íslensku. Hann einkennist af mislitum blettum á húð og góðkynja bandvefsæxlum eða hnútum sem vaxa út frá taugaslíðrum.

Nick þekkja margir NBA áhugamenn því hann komst mikið í fréttirnar á árum áður þegar hann tók þátt í nýliðalotteríinu fyrir hönd Cavaliers.

Cleveland Cavaliers vann lotteríið tvisvar á þremur árum og fékk fyrsta valrétt í nýliðavalinu 2011 (tóku Kyrie Irving) og 2013 (tóku Anthony Bennett). Hann var þá aðeins fjórtán og sextán ára gamall.

Árið 2017 stofnaði Gilbert-fjölskyldan sjóð sem hefur safnað meira en átján milljónum dollara, 2,4 milljarða íslenskra króna, fyrir rannsóknir á þessum sjúkdómi sem herjaði á Nick.

Dan Gilbert hefur átt Cleveland Cavaliers frá árinu 2005 en Gilbert-fjölskyldan býr ekki í Ohio-fylki heldur í nágrannafylkinu Michigan.

Jarðaför Nick Gilbert fer fram á morgun þriðjudag í Temple Israel kirkjunni í West Bloomfield Township í Michigan-fylki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×