Körfubolti

„Skilvirknimafían er alveg örugglega ekki sammála mér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joel Embiid með Michael Jordan sem eru veitt verðmætasta leikmanni NBA-deildarinnar.
Joel Embiid með Michael Jordan sem eru veitt verðmætasta leikmanni NBA-deildarinnar. getty/Tim Nwachukwu

Strákarnir í Lögmáli leiksins segja að Joel Embiid sé vel að því kominn að vera verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur (MVP).

Embiid vann MVP-kosninguna með yfirburðum og hafði betur gegn Giannis Antetokounmpo og Nikola Jokic. Sá síðastnefndi vann þessi verðlaun í fyrra og hitteðfyrra.

„Það hefði alveg verið hægt að velja Nikola Jokic en ég er alveg sammála. Joel Embiid skoraði tíu stigum meira en Jokic þótt skilvirknimafían sé alveg örugglega ekki sammála mér. Ég er sjálfur oft á þeim vagni. En mér fannst þetta verðskuldað. Hann var frábær í vetur,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson í Lögmáli leiksins.

Hörður Unnsteinsson hafði valið Giannis en setur ekkert út á valið á Embiid.

„Var þetta ekki eitt af þeim árum þar sem var í raun ekkert rangt val. Ég var með Giannis en allir þrír hefðu verið vel að þessum verðlaunum,“ sagði Hörður og bætti því við að Jokic hefði eflaust ekki verið valinn því hann fékk MVP-verðlaunin 2021 og 2022.

Klippa: Lögmál leiksins - MVP valið

Í deildarkeppninni var Embiid með 33,1 stig, 10,2 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var stigakóngur deildarinnar annað árið í röð.

Lögmál leiksins er á dagskrá Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 20:45 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×