Enski boltinn

Ten Hag: Þetta snýst ekki um Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford hjá Manchester United reynir að komast framhjá Trent Alexander Arnold hjá Liverpool.
Marcus Rashford hjá Manchester United reynir að komast framhjá Trent Alexander Arnold hjá Liverpool. Getty/Ash Donelon/

Manchester United tapaði tveimur leikjum á aðeins fjórum dögum og hefur með því opnað dyrnar á ný fyrir Liverpool í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Nú munar bara einu stigi á liðunum en United á þó enn leik inni á Liverpool.

Áhyggjuefnið er hins vegar að United hefur aðeins unnið einn af síðustu fjórum deildarleikjum en Liverpool hefur aftur á móti unnið sex deildarleiki í röð.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var spurður út í mögulega pressu frá erkifjendunum úr Bítlaborginni vegna þess að Liverpool hefur étið upp forskot United á síðustu vikum.

„Þetta snýst ekki um Liverpool. Þetta snýst bara um okkur. Ef þú horfir á stöðuna í deildinni þá sérðu að við erum með allt í okkar höndum,“ sagði Erik ten Hag.

Manchester United á eftir heimaleik á móti Úlfunum, útileik á móti Bournemouth, heimaleik á móti Chelsea og heimaleik á móti Fulham. Þrír af fjórum síðustu leikjum liðsins fara því fram á Old Trafford sem ætti að boða mjög gott.

Liverpool á hins vegar eftir að spila þrjá leiki og þeir eru á móti Leicester á útivelli, á móti Aston Villa á heimavelli og á móti Southampton á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×