Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dalvíkurbyggð. Þar segir að árásin hafi uppgötvast í gærmorgun en hefur hún verið tilkynnt til netöryggissveitar CERT-IS og tók annað netöryggisfyrirtæki að sér neyðaratvikastjórnun.
Kerfi sveitarfélagsins hafa verið tryggð gegn frekari árásum og endurreisn stendur yfir, samhliða rannsókn á uppruna árásarinnar. Verið er að herða varni, auka auðkenningarkröfur, takmarka aðgengi að tilteknum þjónustum og biðja notendur um að breyta lykilorðum.
„Dalvíkurbyggð leggur áherslu á að ekkert bendir til að árásaraðilinn hafi komist yfir gögn í kerfum. Séu taldar vísbendingar um slíkt verða hagsmunaaðilar og Persónuvernd upplýst,“ segir í tilkynningunni.
Nýlega var greint frá því að reiknað væri með tölvuárásum í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík sem hefst á morgun.