Enski boltinn

Newcastle tók stórt skref í átt að Meistaradeildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Callum Wilson skorar hér þriðja mark Newcastle í kvöld.
Callum Wilson skorar hér þriðja mark Newcastle í kvöld. Vísir/Getty

Newcastle vann í kvöld góðan sigur á Brighton þegar liðin mættust á St. James Park í kvöld. Newcastle er nú í lykilstöðu að ná sæti í Meistaradeildinni að ári.

Fyrir leikinn í kvöld var Newcastle jafnt Manchester United að stigum í töflunni en bæði voru liðin einu stigi á undan Liverpool, sem situr í 5. sætinu, en áttu leik til góða. 

Það var því kjörið tækifæri fyrir Newcastle að komast í lykilstöðu. Heimamenn komust í 1-0 á 22. mínútu þegar Deniz Undav skoraði sjálfsmark. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Dan Burn síðan með skalla eftir sendingu Kieran Trippier og staðan 2-0 í hálfleik Newcastle í vil.

Áðurnefndur Deniz Undav bætti svo fyrir sjálfsmarkið í upphafi síðari hálfleiks þegar hann minnkaði muninn í 2-1. Brighton gerði síðan þrefalda skiptingu skömmu síðar til að freista þess að jafna og náði að setja pressu á lið heimamanna.

Það var þó lið Newcastle sem átti síðasta orðið. Callum Wilson skoraði þriðja mark liðsins á 89. mínútu og Bruno Guimares bætti því fjórða við í uppbótartíma. Lokatölur 4-1 og Newcastle nú eitt í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar og í góðri stöðu hvað varðar sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×