Enski boltinn

Klopp dæmdur í bann og verður á skilorði í heilt ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp er ekki mikill vinur Paul Tierney dómara.
Jürgen Klopp er ekki mikill vinur Paul Tierney dómara. Getty/ Julian Finney

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, verður ekki á hliðarlínunni hjá liðinu sínu í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Klopp fékk 75 þúsund punda sekt og tveggja leikja bann fyrir ummæli sín eftir leik á móti Tottenham 30. apríl síðastliðinn. Hann þarf þó aðeins að taka út annan leikinn en verður síðan á skilorði í heilt ár. 75 þúsund pund eru meira en þrettán milljónir íslenskra króna.

Liverpool vann leikinn reyndar 4-3 á móti Tottenham en Klopp stal fyrirsögnunum með því að saka Paul Tierney dómara um að hafa eitthvað á móti Liverpool. Þýski stjórinn sagði ekki hvað þeim fór á milli en var ekki sáttur við það sem Tierney sagði við hann.

Aganefnd enska sambandsins fór yfir upptökur með samskiptum Klopp og Tierney og fann ekkert athugavert við það sem dómarinn sagði við Klopp. Hann hafi sýnt þar fagmennsku allan tímann.

Klopp má ekki vera á hliðarlínunni á Anfield á morgun þegar Liverpool mætir Aston Villa í síðasta heimaleik tímabilsins.

Hann verður síðan að passa sig út næsta tímabil því hinn leikurinn í banninu hans verður skilorðsbundinn.

Liverpool er í fimmta sæti deildarinnar með 65 stig, sjö stigum á undan Brighton & Hove Albion sem á einn leiki inni. Liverpool er síðan einu stigi á eftir Manchester United sem er í fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu. United á að auki leik inni á Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×