Enski boltinn

Bolta­strákurinn sem Hazard sparkaði í á meðal þeirra ríkustu í Bret­landi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Margir muna eftir atvikinu umtalaða í leik Swansea og Chelsea árið 2013.
Margir muna eftir atvikinu umtalaða í leik Swansea og Chelsea árið 2013. Vísir/Getty

Fyrrum boltastrákur hjá Swansea, sem komst í fréttirnar fyrir tíu árum síðan eftir að knattspyrnumaðurinn Eden Hazard sparkaði í hann, er nú kominn í sviðsljósið á nýjan leik.

Margir muna eflaust eftir atvikinu á Liberty-leikvanginum í Swansea árið 2013 þegar þáverandi stórstjarnan Eden Hazard fékk rautt spjald fyrir að sparka í magann á boltastrák sem honum fannst heldur lengi að sækja boltann eftir að hann hafði endað fyrir aftan endamörk.

Hazard var harðlega gagnrýndur fyrir athæfið en í kjölfar þess birtust fréttir um sættir á milli Hazard og boltastráksins Charlie Morgan. Í kjölfar atviksins kom reyndar í ljós að Charlie Morgan var ekki eins og hver annar boltastrákur. Hann var bæði eldri og mun ríkari en kollegar sínir enda faðir hans eigandi risastórrar hótelkeðju.

Og nú er hann kominn í fréttirnar á nýjan leik, einmitt vegna fjármála sinna. Á lista sem Sunday Times birti í dag kemur fram að Charlie Morgan er á lista yfir þrjátíu og fimm ríkustu einstaklingana í Bretlandi undir þrjátíu og fimm ára aldri.

Hann er þar í tuttugusta og sjöunda sæti og fyrir ofan menn eins og Harry Kane, markahæsta mann enska landsliðsins frá upphafi. 

Þremur árum eftir atvikið á Liberty-leikvanginum tók Charlie Morgan sjálfur skrefið inn í viðskiptaheiminn. Hann og félagi hans settu á markað drykkinn AU Vodka sem hefur sannarlega slegið í gegn. Drykkurinn var seldur fyrir tæplega 44 milljónir punda á síðasta ári eða um 7,5 milljarða íslenskra króna.

Það er því ólíklegt að Morgan þurfi að skella sér í hlutverk boltastráksins á nýjan leik á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×