Enski boltinn

Jöfnunarmark í uppbótartíma gæti reynst Everton dýrmætt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Everton fagna marki Yerri Mina.
Leikmenn Everton fagna marki Yerri Mina. Vísir/Getty

Yerri Mina tryggði Everton gríðarlega mikilvægt stig í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann jafnaði metin í uppbótartíma gegn Wolves. Fulham og Crystal Palace gerðu einnig jafntefli í dag.

Everton er í bullandi fallbaráttu og mættu í dag Wolves á útivelli sem búið var að bjarga sér. Everton var aðeins einu stigi á undan Leeds í síðasta örugga sæti deildarinnar og tveimur stigum á undan Leicester en þau lið eiga leiki á morgun og mánudag.

Það voru heimamenn í Wolves sem náðu forystunni í leiknum í dag. Hwang Hee-Chan skoraði á 34. mínútu og Everton komið í erfiða stöðu. Gestirnir frá Liverpoolborg reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin í síðari hálfleik en gekk erfiðlega.

Það var ekki fyrr en á tíundu mínútu uppbótartíma sem jöfnunarmarkið kom. Það gerði Yerri Mina og tryggði Everton þar með dýrmætt stig í fallbaráttunni. Everton á heimaleik gegn Bournemouth í síðustu umferðinni og þurfa nú að treysta á að Leeds og Leicester tapi stigum í sínum leikjum.

Aleksander Mitrovic skorar hér annað mark Fulham í leiknum.Vísir/Getty

Í Lundúnum mættust lið Fulham og Crystal Palace í nágrannaslag. Odsonne Edouard kom Crystal Palace yfir á 34. mínútu eftir sendingu Eberechi Eze en Aleksandar Mitrovic jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Mitrovic kom Fulham síðan í forystu eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik en hann skoraði þá með skalla eftir sendingu frá Brasilíumanninum Willian. Gestirnir gáfust þó ekki upp. Á 83.mínútu skoraði Joel Ward jöfnunarmarkið og tryggði Crystal Palace eitt stig.

Lokatölur 2-2 en bæði lið sigla fremur lygnan sjó um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×