Enski boltinn

Leeds áfram í fallsæti eftir tap í Lundúnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jack Harrison svekktur eftir að hafa misnotað færi í leiknum í dag.
Jack Harrison svekktur eftir að hafa misnotað færi í leiknum í dag. Vísir/Getty

Leeds United verður í fallsæti fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu en liðið tapaði 3-1 á útivelli gegn West Ham í dag.

Fyrir leikinn var Leeds tveimur stigum frá öruggu sæti með 31 stig en Everton var sæti ofar með 33 stig. Leicester var sæti neðar en Leeds með 30 stig en Leicester leikur gegn Newcastle annað kvöld. 

Leikurinn í dag byrjaði þó vel fyrir Leeds. Rodrigo kom liðinu yfir strax á 17. mínútu eftir stoðendingu Weston McKennie og Sam Allardyce knattspyrnustjóri brosti á hliðarlínunni. Declan Rice jafnaði hins vegar metin fyrir West Ham á 32. mínútu eftir sendingu Jarrod Bowen. Staðan í hálfleik 1-1.

Á 72. mínútu kom Bowen West Ham síðan í forystu eftir góða sendingu frá Danny Ings. Bowen kláraði færið afar vel en var hársbreidd frá því að vera rangstæður. Eftir skoðun myndbandsdómara var markið hins vegar dæmt gilt og Leeds komið í erfiða stöðu.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna og settu allt kapp í sóknina. Það opnaði á skyndisóknir fyrir West Ham og úr einni slíkri skoraði Manuel Lanzini þriðja mark gestanna á fjórðu mínútu uppbótartíma. Heimamenn voru síðan klaufar að bæta ekki við öðru marki alveg undir lokin þegar Lucas Paqueta slapp aleinn í gegn. Hann hafði allan tímann í heiminum til að klára færið en fór illa að ráði sínu.

Lokatölur 3-1 og Leeds verður því í fallsæti þegar lokaumferðin verður flautuð af stað um næstu helgi. Leicester getur farið upp fyrir Leeds með sigri á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×