Körfubolti

„Guði sé lof að Spurs fékk fyrsta valrétt en ekki Charlotte“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óhemju miklar væntingar eru gerðar til franska undursins Victors Wembanyama.
Óhemju miklar væntingar eru gerðar til franska undursins Victors Wembanyama. vísir/Christian Liewig

Strákarnir í Lögmáli leiksins eru ánægðir með að San Antonio Spurs hreppti fyrsta valrétt í nýliðavalinu í NBA-deildinni og Victor Wembanyama fái að vinna með hinum aldna Gregg Popovich.

Mikil spenna var í loftinu þegar greint var frá því hvaða lið fengi fyrsta valrétt í nýliðavalinu í sumar. Verðlaunin fyrir að hreppa hann er franski unglingurinn Wembanyama. Langt er síðan jafn spennandi leikmaður hefur verið í boði í nýliðavalinu. Til marks um hæfileika Wembanyamas var hann stiga- og frákastakóngur frönsku úrvalsdeildarinnar, þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára.

„Guði sé lof, úr því sem komið var, að Spurs fékk þetta en ekki Charlotte. Það hefði líklega verið leiðinlegasta saga ársins,“ sagði Hörður Unnsteinsson í Lögmáli leiksins.

Klippa: Lögmál leiksins - Umræða um Wembanyama

„Fyrir mér er þetta besta niðurstaðan. Þetta er lang skemmtilegast, sögulega, að fá hann til Pop á síðustu árunum hans,“ sagði Hörður en hinn 74 ára Popovich hefur stýrt Spurs frá 1996 og fimm sinnum gert liðið að NBA-meisturum.

„Ef hann ætlar að ná bestu árunum hans Victors þarf hann að vera þarna áttatíu ára plús. Þeir eru strax byrjaðir að halda utan um hann; Tony Parker, Manu Ginobili og Tim Duncan,“ sagði Tómas Steindórsson um hina heilögu þrenningu sem lék svo lengi með Spurs.

Fjallað verður um nýliðavalið og Wembanyama í Lögmáli leiksins sem verður á dagskrá Stöðvar 2 Sports 2 klukkan 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×