Enski boltinn

„Get ekki lifað eðlilegu lífi lengur“

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland með Englandsmeistarabikarinn sem hann fékk í hendurnar á sunnudaginn.
Erling Haaland með Englandsmeistarabikarinn sem hann fékk í hendurnar á sunnudaginn. Getty/Michael Regan

Norska knattspyrnustjarnan Erling Haaland segir að úr því sem komið er geti hann ekki lifað eðlilegu lífi. Hann hefur vakið athygli um allan heim með framgöngu sinni hjá Manchester City í vetur.

Haaland hefur skorað 53 mörk fyrir City í öllum keppnum í vetur og sett markamet á sinni fyrstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir að hafa orðið Englandsmeistari í fyrstu tilraun um helgina ræddi þessi 22 ára leikmaður, frá norska bænum Bryne, meðal annars um hvernig það væri að vera kominn í hóp stærstu fótboltastjarna heims.

„Ég býst við að það séu nokkuð fleiri sem vita núna hver ég er, svo það er orðið enn erfiðara að gera venjulegustu hluti. En svona er lífið mitt núna og ég get ekki kvartað yfir því,“ sagði Haaland í viðtali við Viaplay í gær.

Í viðtalinu kvaðst hann ekki hafa breytt miklu sjálfur í sínu lífi, þó að hann fengi vissulega meiri umönnun en áður, en sagði þó engan vafa á því að lífið hefði breyst.

„Lífið hefur breyst. Ég get ekki lifað eðlilegu lífi lengur. Svoleiðis er það bara,“ sagði Haaland.

„Ég reyni að vera ég sjálfur eins og ég get, og hafa gott og heiðarlegt fólk í kringum mig. Ég tel að það sé lykilatriði. Það er akkúrat það sem ég hef. Þetta angrar mig ekki svo mikið,“ sagði Haaland sem enn getur landað þrennunni með City því liðið spilar úrslitaleik enska bikarsins 3. júní og úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 10. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×