Enski boltinn

Leikmenn Chelsea ofsóttir af TikTok stjörnu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orla Melissa Sloan áreitti þá Mason Mount, Billy Gilmour og Ben Chilwell.
Orla Melissa Sloan áreitti þá Mason Mount, Billy Gilmour og Ben Chilwell. vísir/getty

Ung kona hefur viðurkennt að hafa ofsótt og áreitt þrjá leikmenn enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea.

Enska TikTok stjarnan Orla Melissa Sloan ofsótti Mason Mount og Ben Chilwell og áreitti Billy Gilmour.

Sloan og Mount sváfu saman eftir gleðskap á heimili Chilwells í nóvember 2020. Þau héldu í kjölfarið í sambandi í sex mánuði áður en Mount batt endi á það.

Hin 21 árs Sloan lét Mount ekki í friði eftir þetta og sendi honum ótal skilaboð. Mount lét loka á símanúmer Sloans en hún notaði þá önnur númer til að senda honum skilaboð yfir fjögurra mánaða tímabil. Alls voru símanúmerin sem Sloan notaði 21 talsins.

Eftir þetta skilaboðafargan kærði Mount Sloan og sagði að hún væri haldin þráhyggju gagnvart sér. Hann óttaðist hvað hún myndi gera, þar á meðal að mæta á æfingasvæði Chelsea.

Sloan sendi einnig skilaboð á vini og ættingja Mounts, meðal annars Chilwell sem er samherji hans í Chelsea og enska landsliðinu.

Gilmour, sem er lánsmaður hjá Brighton, fékk einnig skilaboð frá Sloan í rúman mánuð og sum þeirra innihéldu hótanir. Hann viðurkenndi að skilaboðin frá Sloan hefðu haft mikil áhrif á sig, hann hafi ekki getað sofið og þurft svefntöflur til þess.

Sloan viðurkenndi brot sín en málið verður tekið fyrir á ný 20. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×