Undanúrslitamótið fyrir austurhluta Norður-Ameríku fór fram um síðustu helgi og um næstu helgi er komið að vesturhlutanum. Þar keppir Katrín Tanja Davíðsdóttir en allir hinir Íslendingarnir sem keppa í meistaraflokki og komust alla leið í undanúrslitin keppa í undanúrslitamóti Evrópu sem fer fram í Berlín.
Athygli vekur hvað Ísland er áberandi þegar tekið er saman hvaða keppendur á undanúrslitamótunum hafa mesta reynslu af heimsleikunum á ferlinum fyrir árið í ár.
Hjá konunum skipa nefnilega íslenskar CrossFit konur fjögur af fimm efstu sætunum yfir þær reynslumestu í undanúrslitunum í ár.
Ekki nóg með það heldur eru þær Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir þær einu sem hafa orðið heimsmeistarar í CrossFit af þeim sem standa eftir.
Tia-Clair Toomey, heimsmeistari undanfarinna sex ára, er ekki með í ár þar sem hún var að eignast sitt fyrsta barn. Katrín Tanja er sú sem vann síðast á undan Toomey en það var árið 2016.
Anníe Mist Þórisdóttir er í efsta sætinu yfir reynsluboltana en hún á möguleika á því að komast á sína tólftu heimsleika í einstaklingskeppni.
Katrín Tanja er í öðru sæti en hún getur tryggt sig inn á sína tíundu heimsleika. Báðar hafa þær komist margoft á verðlaunapallinn, Anníe Mist sex sinnum og Katrín fjórum sinnum.
Bandaríska konan Brooke Wells stingur sér upp á milli íslensku kvennanna á toppnum en hún hefur keppt átta sinnum á heimsleikum.
Þuríður Erla Helgadóttir hefur verið með undanfarin ár og alls sjö sinnum á ferlinum.
Sara Sigmundsdóttir er síðan í fimmta sætinu en hún hefur sex sinnum keppt á heimsleikunum. Sara hefur ekki verið með undanfarin ár, en hún missti af 2021 tímabilinu vegna meiðsla og komst ekki inn á heimsleikana í fyrra.