Man. Utd tryggði Meistaradeildarsæti með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bruno Fernandes skoraði þriðja mark United í kvöld.
Bruno Fernandes skoraði þriðja mark United í kvöld. Catherine Ivill/Getty Images

Manchester United vann öruggan sigur er liðið tók á móti Chelsea í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Lokatölur 4-1 og með sigrinum tryggðu heimamenn sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Manchester-mönnum nægði eitt stig úr seinustu tveimur leikjum tímabilsins til að tryggj Meistaradeildarsætið og liðið gerði gott betur en það í kvöld.

Brasilíumaðurinn Casemiro kom heimamönnum yfir strax á sjöttu mínútu eftir stoðsendingu frá Christian Eriksen áður en Anthony Martial tvöfaldaði forystu liðsins á fimmtu mínútu uppbótartíma og staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Bruno Fernandes skoraði svo þriðja mark liðsins af vítapunktinum þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka eftir að Wesley Fofana hafði brotið á honum innan vítateigs.

Það var svo Marcus Rashford sem rak síðasta naglann í kistu gestanna þegar hann skoraði fjóða mark United á 78. mínútu áður en Joao Felix klóraði í bakkann fyrir gestina tíu mínútum síðar og þar við sat.

Niðurstaðan því öruggur 4-1 sigur Manchester United sem nú situr í þriðja sæti deildarinnar með 72 stig þegar ein umferð er eftir. Chelsea situr hins vegar í 12. sæti deildarinnar með 43 stig og getur í besta falli endað sæti ofar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira