Enski boltinn

Luton Town í ensku úr­vals­deildina eftir sigur í vító

Aron Guðmundsson skrifar
Jordan Clark fagnar marki sínu fyrir Luton í dag
Jordan Clark fagnar marki sínu fyrir Luton í dag Vísir/Getty

Luton Town tryggði sér í dag sæti í ensku úr­vals­deildinni á næsta tíma­bili með sigri á Coventry City í úr­slita­leik um­spils ensku B-deildarinnar sem fór alla leið í víta­spyrnu­keppni og bráða­bana.

Það var mikið undir á Wembley, þjóðarleikvangi Englendinga í dag. Ekki bara sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili heldur myndi sigurvegari úrslitaleiksins einnig tryggja sér því sem nemur rúmlega 170 milljónum punda. 

Fyrir aðeins fimm árum síðan mættust Luton Town og Coventry City í leik í ensku D-deildinni en í dag áttust þau við í einum stærsta leik enskrar knattspyrnu á ári hverju.

Það var Luton Town sem byrjaði leikinn af meiri krafti og á 23. mínútu kom Jordan Clark, leikmaður liðsins, boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Elijah Adebayo. 

Reyndist þetta eina mark fyrri hálfleiksins. 

Leikmenn Coventry City mættu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og á endanum skilaði það sér í marki. 

Gustavo Hamer skoraði það mark og jafnaði metin fyrir Coventry eftir stoðsendingu frá Viktor Gyökeres.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar. 

Þar var ekkert löglegt mark skorað. Varamaðurinn Joe Taylor kom boltanum í netið á 117. mínútu en í aðdraganda marksins hafði knötturinn farið í hendi hans og því markið réttilega dæmt af. 

Leiktími framlengingarinnar rann út og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Bæði lið skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum og var því gripið til bráðabana.

Dan Potts skoraði úr sinni spyrnu í bráðabananum fyrir Luton Town og því fór pressan öll yfir á Coventry City.  Fankaty Dabo tók spyrnu liðsins og skaut yfir markið. 

Luton Town hafði þar með tryggt sér sæti í ensku úrvalsdeildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×