Það var góð stemming í íþróttahúsinu á fimmtudaginn þar sem nemendur Grunnskólans á Hellu voru með „Bæjarhelluna“, sem er árlega uppskeruhátíð skólans þar sem nemendur seldu ýmsar vörur, sem þau höfðu búið til, auk þess að vera með skemmtidagskrá eins og danssýningu. Sérstakur gjaldmiðill var í umferð þennan dag þar sem fólk verslaði ýmislegt af nemendum með gjaldmiðlum eftir að hafa skipt íslenskum krónum í nýja gjaldmiðilinn.
„Þetta eru Hellur, okkar útgáfa af krónum. Þær er í mörgum stærðum en það er tvö þúsund, eitt þúsund, eitt hundrað og fimm hundruð. Það eru alltaf vextir og verðbólga og allt hérna, ekki spurning,“ segir Kristinn Andri Sverrisson, nemandi í 9. bekk

Nemendur voru með sína eignin fréttastofu þar sem viðtöl voru tekin og fréttir sagðar.
En hvað var helst í fréttum á Hellu? „Bæjarhellan", vinirnir og Grunnskólinn á Hellu,“ sögðu fréttamennirnir Jakob Agnar, Björgvin Geir og Þór.
Krossarar vöktu sérstaka athygli á Bæjarhellunni en skýringin kom fljótt í ljós. Gunnar Helgason, barnabókarithöfundur var á staðnum að kynna nýjustu bókina sína“, Bella gella krossari“ en nokkrir nemendur skólans eiga heiðurinn af nafni bókarinnar, sem kom í heita pottinum á Hellu.
“Þeir hreinlega réðust á mig í sundi í fyrra. Þeir voru í skólasundi en ég var bara að slaka á því ég var að reyna að skrifa og svona í sumarbústaðnum og þeir bara skipuðu mér að skrifa bók, sem átti að heita “Bella gella krossari” af því að þeir eru í mótorkrossi,” segir Gunnar hlæjandi.

Allir strákarnir voru kallaðir upp á svið og fengu að sjálfsögðu bókina að gjöf frá Gunnari. En það var ekki allt búið þá. Nei, Gunnar ákvað að taka smá rúnt á krossara. Það gekk aðeins illa fyrst, hann drap á hjólinu en svo rauk hann af stað.
“Þetta var hræðilegt, þetta var hræðilegt,” sagði Gunnar eftir ferðina.
