Enski boltinn

Ösku­busku­saga Mpanzu sem fór með Luton úr utan­deild í úr­vals­deild

Aron Guðmundsson skrifar
Mpanzu í úrslitaleiknum með Luton Town í gær
Mpanzu í úrslitaleiknum með Luton Town í gær Vísir/Getty

Ösku­busku­saga Pelly-Rudd­ock Mpanzu, leik­manns Luton Town, er ein sú fal­legasta í knatt­spyrnu­heiminum um þessar mundir. Mpanzu er fyrsti og eini leik­maður sögunnar til þessa að fara með eina og sama liðinu úr ensku utan­deildinni og upp í ensku úr­vals­deildina.

Luton Town tryggði sér í gær sæti í ensku úr­vals­deildinni á næsta tíma­bili með sigri á Coventry City í úr­slita­leik um­spils ensku B-deildarinnar, leik sem fór alla leið í bráða­bana í víta­spyrnu­keppni.

Téður Mpanzu lék sinn fyrsta aðal­liðs­leik fyrir Luton Town í ensku utan­deildinni í desember árið 2013 gegn Al­fret­on. Síðan þá hefur hlut­verk hans í liði Luton orðið stærra og stærra.

Í gær var hann í byrjunar­liði Luton í úr­slita­leik um­spilsins og úr­slit leiksins gerðu það að verkum að hann hefur nú skrifað söguna.

Þegar að Luton Town tryggði sig upp úr ensku D-deildinni árið 2018 hafði Mpanzu það á orði að það kæmi sér á ó­vart að hann væri enn hluti af liði fé­lagsins. Hann bjóst aldrei við því að ná svona hátt á gæða­stigi enskrar knatt­spyrnu.

Mpanzu hefur nú leikið yfir 360 leiki fyrir Luton Town og mun á næsta tíma­bili fá tæki­færi til þess að spreyta sig á móti nokkrum af bestu liðum knatt­spyrnu­heimsins.

Leik­maðurinn spilaði bróður­part leikja Luton á ný­af­stöðnu tíma­bili, alls 33 leiki og skoraði hann í þeim leikjum þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×