Enski boltinn

Pochettino ráðinn knatt­spyrnu­stjóri Chelsea

Aron Guðmundsson skrifar
Mauricio Pochettino er nýr knattspyrnustjóri Chelsea 
Mauricio Pochettino er nýr knattspyrnustjóri Chelsea 

Argentínski knatt­­spyrnu­­stjórinn Mauricio Pochettino hefur verið ráðinn knatt­spyrnu­stjóri enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Chelsea og hefur hann skrifað undir þriggja ára samning við fé­lagið.

Samningur Pochettino við Chelsea gildir til sumarsins 2026 en knatt­spyrnu­stjórinn hafði náð sam­komu­lagi við fé­lagið um kaup og kjör fyrir hálfum mánuði síðan.

Pochettino tekur við stjórnar­taumunum hjá Chelsea af bráða­birgðar­stjóranum Frank Lampard sem steig inn á Brúnna í stað Graham Potter sem var rekinn eftir dapurt gengi.

Chelsea tekur á móti New­cast­le United á St­am­ford Brid­ge í loka­um­ferð ensku úr­vals­deildarinnar í dag og gæti Pochettino verið við­staddur þann leik.

Pochettino var síðast á mála hjá franska stór­liðinu Paris Saint-Germain en hann var látinn fara frá fé­laginu í júlí í fyrra.

Argentínu­maðurinn þekkir ensku úr­vals­deildina vel eftir tíma sinn hjá Totten­ham sem og Sou­hampton í deildinni.

Hann tekur við Chelsea á afar erfiðum tímum fyrir fé­lagið. Chelsea situr í 12. sæti ensku úr­vals­deildarinnar fyrir loka­um­ferðina og mun ekki taka þátt í Evrópu­keppni á næsta tíma­bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×