Erlent

Kín­verjar þurfi að leið­rétta kynja­halla

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Fáar konur sitja á kínverska þinginu og engar í stjórn kommúnistaflokksins.
Fáar konur sitja á kínverska þinginu og engar í stjórn kommúnistaflokksins. Getty

Sameinuðu þjóðirnar leggja til að Kína setji á kynjakvóta fyrir þingmenn og æðstu embættismenn landsins. Alvarlegur kynjahalli sé á stjórn landsins.

Fréttastofan Reuters greinir frá þessu.

Aðeins 26,54 prósent kínverskra þingmanna eru konur. Þetta er aukning frá fyrri tíð en ekki nægilegt að mati höfunda nýrrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Eru stjórnvöld í Kína hvött til þess að fjölga konum í valdastöðum, ekki aðeins á þinginu heldur einnig í dómskerfinu, utanríkisþjónustunni og víðar.

Bent er á að frá því í október síðastliðnum hafa engar konur verið í 24 manna stjórn Kínverska kommúnistaflokksins og heldur engin í sjö manna fastanefnd. Þetta er í fyrsta sinn í 20 ár sem þetta gerist.

Baráttufólk fyrir áreitni

Þá lýstu skýrsluhöfundar einnig yfir áhyggjum yfir því að það fólk sem berst fyrir kvenréttindum í Kína verður ítrekað fyrir áreitni og hótunum. Einnig væru óhóflegar takmarkanir á skráningu frjálsra félagasamtaka, svo sem kvenréttindasamtaka. Voru stjórnvöld hvött til að liðka fyrir skráningunni og beita sér fyrir vernd fólks sem stæði í þessari baráttu.

Samkvæmt baráttu fólki fyrir kvenréttindum hefur staðan í Kína versnað til muna síðan Xi Jinping, aðalræðismaður tók við völdum árið 2012. Bæði hefur kynjahallinn aukist í æðstu stjórn ríkisins og á vinnumarkaðinum. Í staðinn hefur stjórn Jinping lagt áherslu á hefðbundin hlutverk kvenna sem mæðra og umönnunaraðila.

Kínversk stjórnvöld hafa enn þá ekki brugðist við skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×