Enski boltinn

Stóri Sam hættur með Leeds sem vill fá Rodgers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Er stjóraferill Sams Allardyce á enda?
Er stjóraferill Sams Allardyce á enda? getty/Gareth Copley

Sam Allardyce verður ekki áfram knattspyrnustjóri Leeds United. Félagið hefur augastað á Brendan Rodgers.

Stóri Sam tók við Leeds af Javi Gracia í byrjun maí og fékk það verkefni að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Það gekk ekki eftir því Leeds fékk aðeins eitt stig í fjórum leikjum undir stjórn Allardyce. Leeds féll því niður í B-deildina eftir þrjú tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

Nú er ljóst að hinn 68 ára Stóri Sam verður ekki áfram með Leeds. „Það hefur verið heiður að þjálfa Leeds United, frábært félag með ótrúlega stuðningsmenn sem á skilið að vera í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Allardyce sem kveðst ekki vera tilbúinn í langtíma verkefni á þessum tíma.

Ýmsir stjórar hafa verið orðaðir við Leeds en sá sem þykir líklegastur til að taka við liðinu er Rodgers sem var síðast við stjórnvölinn hjá Leicester City. Liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni eins og Leeds og Southampton.

Rodgers var rekinn frá Leicester áður en tímabilið kláraðist. Hann stýrði liðinu í fjögur ár og gerði það að bikarmeisturum 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×