Enski boltinn

„Nú getum við talað um þrennuna“

Aron Guðmundsson skrifar
Guardiola með enska bikarinn í höndunum
Guardiola með enska bikarinn í höndunum Vísir/Getty

Pep Guar­diola, knatt­spyrnu­stjóri Manchester City, var að vonum á­nægður með sigur sinna manna gegn Manchester United í úr­slita­leik enska bikarsins sem fram fór á þjóðar­leik­vangi Eng­lendinga, Wembl­ey, í dag.

Manchester City hafði betur gegn Manchester United með tveimur mörkum gegn engu og er nú skrefi nær því að geta tryggt sér þrennuna eftirsóttu.

„Nú getum við talað um þrennuna,“ sagði Guardiola í viðtali við BBC eftir að Manchester City hafði tryggt sér enska bikarmeistaratitilinn. 

Liðið er nú handhafi enska meistaratitilsins, enska bikarsins og getur með sigri á Inter Milan, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, tryggt sér þrennuna.

„Auðvitað þurfum við nú að vinna Meistaradeildina en við stóðum okkur svo vel í dag fyrir borgina okkar og stuðningsmennina.“

Hann segir varnarleik Manchester United hafa komið sér á óvart.

„Þeir vörðust okkur vel maður á mann og við bjuggumst ekki við því að þeir myndu verjast svona þétt. Við náðum hins vegar að búa okkur til meira svæði í seinni hálfleik.“

Leikmenn Manchester City fá frí næstu tvo daga en svo hefst undirbúningurinn fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu af alvöru.

„Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur í dag. Enska bikarkeppnin er sérstök.“

Þá hafði hann falleg orð að segja um Manchester City.

„Ég er stuðningsmaður Barcelona en ég mun elska þetta félag svo lengi sem ég lifi. Ég veit að í dag gáfum við stuðningsmönnum okkar góða gjöf með sigri á nágrönnum okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×