Fótbolti

Ó­trú­leg dramatík þegar Royal Antwerp vann fyrsta meistara­titilinn í 66 ár

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mark Van Bommer knattspyrnustjóri Royal Antwerp og hetjan Toby Alderweireld fagna meistaratitlinum.
Mark Van Bommer knattspyrnustjóri Royal Antwerp og hetjan Toby Alderweireld fagna meistaratitlinum. Vísir/Getty

Toby Alderweireld er líklegast kominn í hóp elífðarhetja hjá belgíska félaginu Royal Antwerp. Hann tryggði liðinu í dag belgíska meistaratitilinn með marki á síðustu mínútu í leik gegn Genk.

Mikil spenna var fyrir lokaumferðina í belgísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem leikin var í dag. Royal Antwerp og Union Saint-Gilloise voru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina og Genk aðeins einu stigi á eftir en Genk og Antwerp mættust í úrslitaleik í dag.

Þegar komið var fram á 89. mínútu leiks Union Saint-Gilloise og Club Brugge var fyrrnefnda liðið í kjörstöðu. Liðið var 1-0 yfir og Genk á sama tíma í forystu gegn Royal Antwerp sem þýddi að Union Saint-Gilloise yrði meistari myndi leikirnir enda þannig.

Þá hófst hins vegar ótrúleg dramatík. Club Brugge jafnaði metin á 89. mínútu og Genk skyndilega komið í efsta sætið. Club Brugge bætti tveimur mörkum við í uppbótartíma sem þýddi að Union Saint-Gilloise var búið að stimpla sig út í baráttunni um titilinn og ljóst að Genk eða Royal myndi hampa titlinum.

Þegar komið var fram í uppbótartíma var Genk 2-1 yfir í leiknum gegn Royal Antwerp. Genk hafði náð forystunni með marki Toluwalase Arokodare í fyrri hálfleik en Gyrano Kerk jafnað fyrir Royal Anwerp á 58. mínútu.

Bryan Heynen kom Genk svo í 2-1 á 75. mínútu og lengi vel leit út fyrir að það mark myndi færa Genk fimmta meistaratitil liðsins. Á fjórðu mínútu uppbótartíma skoraði hins vegar Toby Alderweireld, fyrrum leikmaður Tottenham, stórkostlegt mark fyrir Antwerp sem skyndilega var komið í efsta sætið.

Leikmenn Royal Antwerp héldu út síðustu mínúturnar og fögnuðu gríðarlega í leikslok. Toby Alderweireld er fæddur í borginni Antwerp og hafði lofað því að ljúka ferlinum með liði Royal Antwerp. Hann stóð við sitt, kom til liðsins síðasta sumar og í kvöld tryggði hann liðinu fyrsta meistaratitilinn síðan árið 1957. 

Royal Antwerp lauk keppni með 47 stig í efsta sæti og Genk í öðru sæti með 46 stig og betri markatölu en Union Saint-Gilloise sem einnig endaði með 46 stig í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×