Enski boltinn

Postecoglou náð samkomulagi við Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ange Postecoglou með skoska bikarinn sem Celtic vann eftir sigur á Inverness.
Ange Postecoglou með skoska bikarinn sem Celtic vann eftir sigur á Inverness. getty/Richard Sellers

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Ange Postecoglou verði næsti knattspyrnustjóri Tottenham.

Spurs hefur verið í stjóraleit síðan Antonio Conte hætti hjá félaginu í mars. Cristian Stellini stýrði liðinu í nokkrum leikjum og Ryan Mason kláraði svo tímabilið með því.

Postecoglou hefur gert frábæra hluti með Celtic síðan hann tók við liðinu fyrir tveimur árum. Í vetur vann Celtic þrefalt heima fyrir.

Postecoglou er eftirsóttur en svo virðist sem Tottenham hafi unnið kapphlaupið um hann. Samkvæmt the Guardian hefur hann náð munnlegu samkomulagi við félagið um tveggja ára samning með möguleika á árs framlengingu. Þegar Spurs hefur náð samkomulagi við Celtic um bætur verður hægt að ganga frá ráðningunni á Postecoglou.

Sjálfur vildi hinn 57 ára Postecoglou ekkert tjá sig um áhuga Tottenham eftir úrslitaleik skosku bikarkeppninnar um helgina.

„Ég skulda vinum mínum og fjöl­skyldu það að njóta þessarar stundar. Ég skil af hverju þú ert að spyrja mig að þessu en frá mínu sjónar­horni verð­skulda ég það að njóta stundarinnar,“ sagði Postecoglou.

Áður en Postecoglou tók við Celtic þjálfaði hann Yokohama í Japan. Hann er fæddur í Grikklandi en uppalinn í Ástralíu. Hann þjálfaði ástralska landsliðið á árunum 2013-17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×