Íslenski boltinn

Gísli um þriðja markið: „Þetta var bara svona eins og venju­leg þriðju­dags­æfing“

Sverrir Mar Smárason skrifar
Gísli kom inn af bekknum og breytti gangi mála í leik kvöldsins.
Gísli kom inn af bekknum og breytti gangi mála í leik kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik vann í kvöld torsóttan 3-1 sigur á FH í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Liðið er því komið í undanúrslit og stefnir á bikarinn. Gísli Eyjólfsson, leikmaður Blika, var sáttur með sigurinn að lokum. Gísli sat á bekknum í fyrri hálfleik en kom inná í hálfleik.

„Í fyrri hálfleik sá ég þetta þannig að menn væru ekki alveg tilbúnir í þetta. Við héldum alveg boltanum og allt það en við náðum ekki að fara bakvið þá. Þeir voru hátt með línuna en við vorum ekki að fá hlaupin bakvið línuna til þess að hreyfa við þeim. Svo kemur þetta mark hjá þeim er er kjaftshögg og menn fá skjálfta við það.“

„Mér fannst vanta fleiri hlaup og mér fannst við bæta það í seinni hálfleik. Þá þurfa þeir að bregðast við því og þá myndast meira pláss á miðjunni,“ sagði Gísli um fyrri hálfleikinn.

Blikar gerðu tvær breytingar í hálfleik. Líkt og fyrr segir kom Gísli inná en auk hans kom inn Klæmint Olsen sem átti eftir að skora tvö mörk fyrir Breiðablik. Blikar voru 0-1 undir í hálfleik, jöfnuðu á 69. mínútu og skoruðu svo tvö mörk í uppbótartíma.

„Ég fékk þau skilaboð að koma inn með krafti. Lexi og Ágúst voru búnir að vera mjög flottir í fyrri hálfleik en svo urðu bara aðeins breytingar.“

„Manni leið ágætlega í 1-1 því við vissum að við ættum framlenginguna eftir ef að henni skildi koma. Mér finnst hópurinn vera ferskur og engin þreyta í mannskapnum. Mér fannst við tilbúnir í að taka framlenginguna ef þess þurfti en sem betur fer steig Davíð upp [og skoraði annað mark Blika],“ sagði Gísli.

Gísli lagði sjálfur upp þriðja mark Blika með óvæntum en frábærum einleik áður en hann lagði boltann fyrir markið á Klæmint sem kom honum í netið. Þetta er ekki algengt að sjá frá Gísla en aðspurður segist hann gera þetta oft á æfingum.

„Þetta var bara eins og venjuleg þriðjudagsæfing,” sagði Gísli og hló en hélt svo áfram: „Ég veit það ekki ég fékk kannski meiri tíma og meira pláss því aðrir voru orðnir þreyttir en ég var bara búinn að spila 45 mínútur. Það var ekkert undir þarna í lokin og það er gaman aðeins að leika sér,” sagði Gísli.

Líkt og fyrr segir eru Blikar komnir áfram í undanúrslit, Gísli var spurður hvort hann myndi vilja spila við Víkinga og skilja þá eftir en Gísli hafði aðrar hugmyndir.

„Mér er eiginlega alveg sama og veit ekki hverjir eru eftir í pottinum. Er ekki Grindavík þarna? Það væri frábært að fá Gaua Lýðs hérna á Kópavogsvöll,” sagði Gísli að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×