Um áratugaskeið hefur það verið hátturinn í Grundarfirði að kvenfélagið Gleym-mér-ei á og rekur bollastell en samkomuhúsið matarstell og ýmis eldhúsáhöld. Samkomuhúsið er í eigu sveitarfélagsins og kvenfélagið hefur þar aðstöðu.
Í marsmánuði sendi Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri kvenfélaginu bréf þar sem hún lagði til að bollastellið og matarstellið yrðu sameinuð. Í lok maí sendi kvenfélagið bæjarstjóra afsvar um það.

„Þetta var spurning um útfærslu á því hvort við ættum að sameina þessi stell. Í 900 manna samfélagi er alltaf spurning hvort hægt sé að samnýta hluti,“ segir Björg. „Þær vildu það ekki að sinni. En það eru engin átök í kringum þetta.“
Ekki milljóna virði
Sveitarfélagið leigir út matarstellið sitt með samkomuhúsinu. Leiga kvenfélagsins er hins vegar víðtækari. „Kvenfélagið heldur líka veislur annars staðar og leigir út bollastellið,“ segir Björg. Hafi kvenfélagið því ekki talið hentugt að sameina stellin.

Aðspurð um verðmætin í þessum stellum segir Björg að þetta sé all nokkur rekstur. Um 200 stykki af diskum, undirskálum og bollum til dæmis. „Það eru engar milljónir í þessu,“ segir hún hins vegar.