Frá þessu greinir á Facebook-síðu skólans. Þar kemur fram að Elizabeth hafi áratuga reynslu sem listrænn stjórnandi, ballettkennari, pilates-þjálfari og danshöfundur.
„Hún nam listdans hjá The Royal Ballet School og English National Ballet og starfaði m.a. sem dansari hjá English National Ballet og Cecelia Marta Dance Company. Elizabeth hefur samið dansa fyrir mörg evrópsk stór verkefni og söngleiki á West End.
Hún hefur verið yfirþjálfari í fjölda söngleikja og var meðalannars ballettþjálfari drengjanna sem leika Billy Elliott á West End um árabil. Hún sá einnig um þjálfun Billy-strákanna á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.
Nokkur óvissa hefur verið um starfsemi Listdansskóla Íslands síðustu mánuði og var öllu starfsfólki sagt upp í mars síðastliðinn vegna óvissu um fjármögnun skólans. Hafa stjórnendur skólans gagnrýnt að ekkert fjármagn komi frá sveitarfélögum og að framlög frá ríkinu dugi ekki fyrir rekstrinum.
Listdansskóli Íslands býður uppá grunnnám fyrir níu til sextán ára og svo framhaldsnám til stúdentsprófs í listdansi á bæði nútímalistdansbraut og klassískri listdansbraut. Skólinn er til húsa við Engjateig.