Erlent

Deilt um for­ræði barnanna sem lifðu flug­slysið í regn­skóginum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Amma og afi barnanna segja föður þeirra hafa beitt móður þeirra heimilisofbeldi.
Amma og afi barnanna segja föður þeirra hafa beitt móður þeirra heimilisofbeldi. AP/Ivan Valencia

Forræðisdeilur eru komnar upp milli ættingja barnanna fjögurra sem lifðu flugslys og 40 daga ein í Amazon-regnskóginum í Kólumbíu. Móðir barnanna lést í kjölfar flugslyssins.

Börnin, sem eru á aldrinum eins til þrettán ára, voru enn á spítala í gær og verða þar næstu daga. Barnaverndaryfirvöld fara nú með umsjá þeirra og hefur þeim verið skipaður málssvari, að ósk ömmu þeirra og afa móður megin.

Miðlar hafa eftir barnaverndaryfirvöldum að þegar börnin séu búin að jafna sig verði rætt við þau til að ákvarða forræði  yfir þeim en andleg og líkamleg heilsa þeirra sé nú í forgangi. 

Amman og afinn hafa óskað eftir að fá forræði  yfir börnunum en faðir yngri barnanna tveggja, Manuel Ranoque, hefur verið sakaður um heimilisofbeldi.

Afi barnanna segir þau oftsinnis hafa þurft að leita skjóls í skóginum þegar slagsmál brutust út milli foreldra þeirra.

Ranoque hefur viðurkennt að það hafi verið erfiðleikar heima fyrir en segir um að ræða einkamál. Spurður að því hvort hann hefði ráðist á eiginkonu sína svaraði Ranoque: „Með orðum, stundum já. Líkamlega, mjög sjaldan.“

Að sögn Ranoque hefur hann ekki fengið að hitta eldri börnin tvö þar sem hann er ekki faðir þeirra. 

Móðir barnanna lifði í fjóra daga eftir flugslysið en hvatti börnin til að yfirgefa sig og freista þess að komast af. Elsta barnið, Lesly, er sögð hafa haldið systkinum sínum á lífi með því að nýta sér þekkingu sína á regnskóginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×