Laufey Rós Hallsdóttir hefur notið mikilla vinsælda á Facebook hópnum Gamaldags matur þar sem hún sýnir huggulegan heimilismat. Hveitikökur falla vel í þann flokk og þykja mörgum þær til að mynda ómissandi yfir jólin.

Í haustlægðinni sem nú geysar yfir landið þrátt fyrir hér eigi að heita sumar er tilvalið að skella í hveitikökurnar sem Laufey Rós segir sáraeinfalt og því á færi flestra.
Pönnukökupannan gerir gæfumuninn
Laufey er lærður matartæknir og starfar sem yfirmatráður á dvalarheimilinu Hulduhlíð á Eskifirði þar sem hún er búsett ásamt fjölskyldu sinni.

Hún segir best að nota pönnukökupönnu við baksturinn þrátt fyrir að áður fyrr hafi hveitikökurnar verið steiktar á hellum rétt eins og flatkökur. „Ég geri þessa uppskrift oft bæði fyrir mitt heimilisfólk sem og aðra.

Þær eru alltaf í fjölskylduveislum og þá smyr ég þær yðurlega með reyktum laxi, silung eða hangikjöti. Svo er líka gott að stækka uppskriftina og eiga í frysti til að grípa í."
500 g hveiti
60 g mjúkt smjör
50 g sykur
4 tsk. lyftiduft
½ tsk. matarsódi
salt
4 dl mjólk
Hnoðið vel saman í höndunum eða notið hnoðarann í hrærivélinni þar til deigið hefur blandast vel. Skiptið því svo í nokkrar jafnar kúlur. Þið ættuð að ná sjö til tíu kúlum. Fletjið út í hringlóttar kökur og notið hveiti til að auðvelda verkið því deigið er svolítið klessulegt. Hnoðið í þá stærð sem pönnukökupannan er. Steikið svo á meðalheitri þurri pönnunni þar til byrjar að taka smá lit undir og snúið svo við. Þetta tekur ekki langan tíma.

Berið svo fram með því áleggi að eigin vali. Hveitikökur eru góðar með öllu.