Þetta kemur fram í viðtali fréttastofu við Svandísi nú síðdegis en Vísir hefur greint frá því í dag að óvænt ákvörðun hennar hafi lagst misvel þingmenn Sjálfstæðisflokksins auk þess sem Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lýst yfir því að hann sé ósammála Svandísi, þetta sé ekki ákvörðun sem honum hugnist. Þá hefur Eiríkur Bergmann lýst því yfir að hann telji meiri líkur á stjórnarslitum í dag en í gær.
Svandís segist spurð um ákvörðunina hana ekki vera svar við ummælum bæði Jóns Gunnarssonar fráfarandi dómsmálaráðherra og afgerandi ummælum Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um útlendingamál, sem hafa lagst illa í ýmsa innan VG.
„Nei, þetta er ekki þannig ákvörðun. Hún er efnisleg, málefnaleg og fagleg,“ segir Svandís. Það væri ekki mjög skynsamlegt að taka ákvörðun af þessari stærðargráðu sem byggðist á öðru eins og því. „Sem svar við einhverri ákveðinni pólitískri stöðu. Þetta snýst um að taka faglega ákvörðun sem byggist á faglegum grunni. Og það er það sem ég er að gera.“
En ertu með þessu að tefla stjórnarsamstarfinu í tvísýnu?
„Ég meina, þetta er mín ákvörðun og ég kynnti hana fyrir ríkisstjórn í morgun. Það voru ágætis skoðanaskipti þar eins og oft hefur gerst þegar verið er að taka ákvarðanir á borðum einstakra ráðherra. Þannig að ég held að ríkisstjórnin sé ekki í hættu vegna þessarar ákvörðunar,“ segir Svandís.