Í nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál sem Mathias Cormann framkvæmdastjóri OECD, efnahags- og framfarastofnunar, kynnti í morgun kemur fram að hagvöxtur væri meiri á Íslandi en í öðrum OECD og ríkjum sem væri drifinn áfram með innflutningi vinnuafls.
Cormann segir að í þessari stöðu felist bæði tækifæri og áskoranir. Nauðsynlegt væri að grípa til ráðstafana til að innflytjendur fengju að njóta menntunar sinnar og hæfileika.
„Að meðaltali eru innflytjendur á Íslandi ofmenntaðir fyrir störfin sem þeir vinna eða þeir eru það oft. Það er tækifæri fyrir þá að leggja jafnvel enn meira af mörkum ef við bætum viðurkenningu á sérkunnáttu og ef við bætum tungumálakennslu enn frekar sem þeir geta fengið hérna á Íslandi,“ segir Cormann

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra tekur undir meðOECD að efla þurfi íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Enginn innflytjendastefna væri til á Íslandi en hún væri í mótun.
„En eitt er alveg víst að við verðum að setja stefnuna þangað að hér verði ekki til tvær þjóðir eða fleiri í landinu. Þar sem innflytjendur eru láglaunafólk og innfæddir eru á betri kjörum,“segir Guðmundur Ingi.
Þá leggur OECD til að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði færður úr neðra þrepi í efra þrep. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þetta skoðunar virði til að draga úr álagi af mikilli eftirspurn í ferðaþjónustunni á innviði landsins.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar. Sjá hvernig það myndi koma út fyrir ferðaþjónustuna heilt yfir. Það er alveg ljóst að þetta myndi draga eitthvað úr samkeppnishæfni gistiþjónustu á Íslandi borið saman við önnur lönd sem almennt eru í neðra virðisaukaskattsþrepinu,“segir Bjarni Benediktsson.