Framtíð Ilkay Gundogan hefur verið í óvissu síðustu vikur og mánuði en samningur hans hjá Englands- og Evrópumeisturum Manchester City rennur út í sumar. Gundogan hefur ítrekað verið orðaður við Spánarmeistara Barcelona en Pep Guardiola hefur lýst því yfir að hann vilji fyrir alla muni halda Þjóðverjanum í Manchesterborg.
Nú greinir íþróttafréttmaðurinn Fabrizio Romano frá því að Gundogan sé búinn að skrifa undir við Barcelona og hefur skellt sínum víðsfræga frasa „Here we go!“ við færslu sína á Twitter en Romano þykir afar trúverðugur í félagaskiptabransanum.
Ilkay Gündogan to Barcelona, here we go! Final approval arrived on club side to register him as new signing, green light from the player. It s done deal, signed few minutes ago. #FCB
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) June 21, 2023
Gündogan has agreed a two year deal valid until June 2025 with option for further year. pic.twitter.com/Gr467hNBms
Samkvæmt Romano hefur Gundogan skrifað undir tveggja ára samning við Barcelona en hann var fyrirliði Manchester City á síðasta tímabili og er hvalreki fyrir Xavi og lærisveina hans.
Þá greina enskir fjölmiðlar frá því að Newcastle hafi lagt fram 55 milljón punda tilboð í Sandro Tonali miðjumann AC Milan. Tonali er tuttugu og þriggja ára gamall miðjumaður sem var í lykilhlutverki hjá AC Milan á nýliðnu tímabili.
Tonali hefur leikið fjórtán landsleiki fyrir ítalska landsliðið og hefur komið við sögu hjá ítalska liðinu í undankeppni Evrópumótsins nú í vor.
Tonali er fyrsta val knattspyrnustjórans Eddie Howe til að styrkja miðsvæðið hjá Newcastle en viðræður félagsins við ítalska stórveldið hafa staðið yfir síðasta sólarhringinn.