Þetta kemur fram í skilaboðum sem Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., sendi á þá sem áttu að hefja störf í vikunni. Í skilaboðunum segir að forsendur ráðninga séu brostnar og að ekki verði af þeim.
„Eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir hefur matvælaráðherra þann 20. júní 2023, upp á sitt einsdæmi og fyrirvaralaust, takmarkað veiðitímabil langreyða þannig að þær geta ekki hafist fyrr en fyrsta september 2023, samkvæmt því sem segir í ákvæði til bráðabirgða við reglugerð nr. 163/1973 um hvalveiðar, eins og henni hefur nú verið breytt af hálfu matvælaráðherra,“ segir í skilboðunum sem Vísir hefur undir höndum.
Kristján segist harma þá stöðu sem upp sé komin, sem sé fordæmalaus í sögu félagsins.
Þá segir:
„Komi til þess að einstakir aðilar vilji leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum vegna þessa, mun Hvalur hf. að sjálfsögðu aðstoða eftir föngum.“
Greint hefur verið frá því að á annað hundrað einstaklingar hafi verið búnir að ráða sig á vertíð hjá Hval.