Enski boltinn

Fyrrum leik­maður ÍBV á leið til Arsenal

Smári Jökull Jónsson skrifar
Cloe Lacasse í leik með landsliði Kanada.
Cloe Lacasse í leik með landsliði Kanada. Vísir/Getty

Kanadíska landsliðskonan Cloe Lacasse virðist vera á leið til stórliðs Arsenal en hún kvaddi stuðningsmenn Benfica á samfélagsmiðlum í dag.

Cloe Eyja Lacasse lék með ÍBV á árunum 2015-2019 þar sem hún skoraði 73 mörk í 113 leikjum. Hún var komin með íslenskan ríkisborgararétt og hugðist leika fyrir íslenska landsliðið en Alþjóða knattspyrnusambandið gaf ekki grænt á það þar sem hún hafði ekki búið nógu lengi samfleytt á Íslandi.

Lacasse gekk til liðs við Benfica árið 2019 og átti frábært tímabil fyrir portúgalska stórliðið. Hún skoraði 36 mörk í 52 leikjum fyrir félagslið sitt og landslið Kanada og hefur vakið athygli stórliða.

Lacasse var orðuð við Arsenal í janúarmánuði og svo aftur á nýjan leik fyrir nokkrum dögum síðan. Í dag birti Lacasse síðan langa kveðju á Twittersíðu sinni þar sem hún þakkaði fyrir sinn tíma hjá Benfica.

Talið er að greint verði frá félagaskiptum hennar til Arsenal á næstu dögum. Arsenal hefur á að skipta geysilega sterku liði en liðið hafnaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu auk þess að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Arsenal tilkynnti í gær um komu sænsku landsliðskonunnar Amanda Iliestedt og talið er að Cloe Lacasse sé næsti nýi leikmaður sem tilkynnt verður um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×