Hluti af undirbúningnum er að æfa úti á frjálsíþróttavelli og það gerðu þau í níutíu mínútur í rigningunni í gær.
Anníe Mist og Björgvin Karl eru auðvitað miklir reynsluboltar, Anníe Mist er að keppa á sínum tólftu heimsleikum í einstaklingsflokki og Björgvin er á sínum tíundu.
Það er nauðsynlegt í undirbúningnum að hlaupa líka úti og gera mögulegar æfingar sem fara fram utanhúss. Það er von á öllu mögulegu á heimsmeistaramótinu.
Aðstæðurnar í Madison í Bandaríkjunum verða þó allt öðruvísi en þær eru á Íslandi.
Það er alveg ljóst að hitinn mun spila stórt hlutverk á heimsleikunum enda hásumar þar þegar leikarnir fara fram.
Anníe Mist og Björgvin Karl breyta aftur á móti ekki hitastiginu á Íslandi en þau létu aðstæðurnar í gær ekki stoppa sig í að ná góðri æfingu þrátt fyrir rigninguna.
Keppnisskapið er líka á réttum stað og það mátti sjá það þegar þau tóku létta keppni sem Anníe setti inn á samfélagsmiðla sína.
Fyrst var að svolgra niður drykk og taka í framhaldinu handgöngukapphlaup. Kapphlaupið má sjá hér fyrir neðan en hver ætli hafi unnið?