Enski boltinn

Allt í einu orðinn ári yngri

Sindri Sverrisson skrifar
Son Heung-Min er að verða 31 árs gamall en var samkvæmt gömlu lögunum í Suður-Kóreu 32 ára gamall.
Son Heung-Min er að verða 31 árs gamall en var samkvæmt gömlu lögunum í Suður-Kóreu 32 ára gamall. Getty/Sebastian Frej

Suður-kóreski knattspyrnumaðurinn Son Heung-Min, leikmaður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, varð í gær einu og hálfu ári yngri samkvæmt lögum í heimalandi hans.

Lögunum um aldur fólks í Suður-Kóreu hefur nefnilega verið breytt. Forsetinn Yoon Suk Yeol samþykkti breytt lög í desember og þau tóku svo gildi í gær. 

Breytingin þýðir að aldur fólks í Suður-Kóreu er núna talinn eins og annars staðar í heiminum, það er að segja að börn eru 0 ára við fæðingu og bæta svo einu ári við aldur sinn á hverjum afmælisdegi.

Gömlu lögin í Suður-Kóreu voru hins vegar þannig að meðgöngutími var í raun tekinn með í reikninginn. Til að flækja málið ekki of mikið voru börn því álitin eins árs gömul við fæðingu, og svo var einu ári bætt við aldur þeirra 1. janúar ár hvert, alveg sama þó að þau hefðu fæðst til dæmis í desember.

Eins mánaðar gamalt barn annars staðar í heiminum gat því verið talið tveggja ára gamalt í Suður-Kóreu.

Hið hefðbundna, alþjóðlega aldurskerfi var hingað til aðeins notað í Suður-Kóreu vegna opinberra skjala á borð við sjúkraskýrslur og fleira. Munurinn á kerfunum hefur í gegnum tíðina valdið deilum og ruglingi sem nú ætti að hverfa.

Og svo að það sé á hreinu þá er Son eftir sem áður fæddur 8. júlí 1992, og því brátt 31 árs gamall samkvæmt því aldurskerfi sem heimurinn miðar við. Engu þarf að breyta varðandi skráningu hans í ensku úrvalsdeildinni því þar er skráður fæðingardagur en ekki aldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×